Þakkir fyrir kveðjur á 73ja ára afmæli
Smáþankar um vettvanginn
Það kostar svo lítið að vera á Facebook! Þar er ekki átt við fjármuni heldur tíma. Það er auðvelt að láta heyra í sér, taka eftir því sem fjölskylda, vinir, félagar víða að, fjöldi nemenda og annað áhugavert fólk – segir og gerir. Og svo er einfalt að bregðast við – spurningar, hvatning, vonandi málefnaleg viðbrögð og smávegis glettni. Hér er ekki fræðafélag á ferð – sem er einn stóru kostanna við Facebook.
Samskipti á neti hefi ég sjálf þekkt vel, og skrifað greinar um, allt frá því seint á áttunda áratug síðustu aldar. Dóttir mín kær, Hlíf Arnlaugsdóttir, skrifaði svo 1993 BA ritgerð í mannfræði: Myndun samfélags á tölvuneti. Tímamótaritgerð segir prófessor Gísli Pálsson. Þegar hún var að byrja að hugsa um viðfangsefnið var hún á kafi í MUD-leiknum í fjölþjóðahópi stúdenta. Ég var þá gistiprófessor við OISE í Toronto og ef ég þurfti að ræða við hana fór ég inn á MUD sem mamma, eina mamman þar. Alltaf brást einhver við mér þar og lét hana vita.
Nokkru síðar hófu drengirnir, Guðmundur og Skúli Arnlaugssynir, að blogga. Það var opið svo ég fylgdist með, ekki til að njósna heldur að kynnast orðfæri og áhugamálum sem þar voru, en ekki á dagskrá við matarborðið heima. Mig langaði að kynnast þeim á víðtækari hátt, en sem mamma, til að skilja þá betur í því frábæra vinasamhengi sem þeir voru. Meðal vina minna á Facebook eru nokkrir vinir sonanna frá þessum tíma.
Lífið heldur áfram og ég hreint ELSKA tæknina. Hér gefst kostur á að fylgjast með því sem fólk segir, spjalla í þægilegu umhverfi, reyna að hafa áhrif innan þess ramma sem maður kýs sér, leggja „gott“ til mála, jafnvel ögra pínulítið og að glettast ef kostur er. – Arnlaugur, tæknisérfræðingurinn minn og ektamaki, velur þó önnur svið til samsstarfs við fólk og liðsinnis við málefni.
Í Toronto vorið 1992 heimsótti ég skóla þar sem unnið var eftir hugmyndum og rannsóknum Scardamalia og Bereiter – Knowledge Building. Skólinn nýtti öflugt tölvusamskiptakerfi OISE er nefndist CSILE. Viðfangsefni nemendahópa var að skapa þekkingu. Þeir áttu samskipti við aðila víða um heim – líka sérfræðinga. Þetta var tímamótaverk en hefur sem betur fer náð um allan heim fyrir löngu. Mér féll svo vel sjálfshvöt og sjálfsábyrgð nemendahópanna. Þau nýttu ekki möguleika á að láta mata sig sem þó eru víða á vefnum og fjölgar sífellt. Þau voru sjálf gerendur í uppbyggingu þekkingar Þannig hefur mér þótt gott að læra frá því ég var barn og tæknin liðsinnir nú sem aldrei fyrr.